Bergmál - Líknar- og vinafélag :: Saga félagsins Ágrip af sögu Bergmáls
Tildrögin að stofnun Bergmáls eru þau, að nokkrir gamlir nemendur Hlíðardalsskóla í Ölfusi ákváðu að koma  saman og gleðjast yfir því að ástfólginn kennari þeirra, Jón Hjörleifur Jónsson var kominn á fætur á ný eftir alvarlegt bílslys. Jón Hjörleifur var stjórnandi skólakórs Hlíðardalsskóla, þar sem við mörg hver áttum ógleymanlegar stundir saman. Það lá því beinast við að við stofnuðum kór sem nefndur var Bergmál, bergmál frá ómum æskuáranna. Undir stjórn Jón Hjörleifs sungum við saman lögin sem okkur voru svo kær eftir dvölina á Hlíðardalsskóla. Aðalhvatamaður að þessum endurfundum var Ólafur Ólafsson söngvari. Þegar Ólafur veiktist af krabbameini og lá banaleguna, ritaði hann m.a. í dagbók sína - ég vildi óska þess að til væri staður uppi í sveit, þar sem langveikt fólk gæti átt athvarf.

Þetta varð okkur hvatning og í minningu þessa vinar okkar og skólabróður stofnuðum við Bergmál, líknar- og vinafélag árið 1994.

Fyrstu orlofsvikuna héldum við síðan að Hlíðardalsskóla í ágústmánuði 1995.  Við áttum ekki neitt nema viljann til að gera gagn, en með hjálp góðra manna og fyrirtækja tókst að safna því sem til þurfti til að gera orlofsvikuna að veruleika.

Dvöl gesta okkar var þeim að kostnaðarlausu og þannig er það enn í dag.
Allir sem starfa að orlofsvikunum leggja fram vinnu sína sem sjálfboðaliðar.  Þá hefur það verið gæfa félagsins að eiga marga velunnara sem hafa lagt félaginu lið bæði með fjárhagslegum styrkjum og á annan hátt. Framlag alls þessa fólks verður seint fullþakkað.

Á fyrstu orlofsvikunni voru um 40 gestir, sem flestir voru krabbameinssjúklingar.
Strax næsta ár var þessum vikum fjölgað í tvær á ári og síðan í þrjár. Jafnframt hefur hópurinn breikkað og nú nær hann yfir krabbameinssjúka, aðra langveika og blinda.

Hin síðari ár hefur umsóknum um orlofsvikurnar fjölgað svo mjög að erfitt er að koma öllum í orlofið sem um það biðja. Á sama tíma hafði hefðbundin starfsemi að Sólheimum vaxið svo þrengt var að starfsemi félagsins þar.

Því var ákveðið að reisa þar hús undir hluta af starfseminni. Þetta hús er sérhannað með aðstöðu fyrir fatlaða og rúm er fyrir 26 gesti.

Hér er aðeins stiklað á stóru um sögu og starfsemi Bergmáls. Þeim sem óska eftir nánari upplýsingum er bent á að hafa samband við einhvern stjórnarmanna eða senda fyrirspurn á netfang félagsins.
Hvort tveggja er birt annars staðar á heimasíðunni.
Bergmál Líknar- og vinafélag, Fjarðarási 10 110 Reykjavík, Sími: 587 5566, Kennitala: 4902942019
.: Innskráning :.